Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Stjörnuspá fyrir árið 2008

Krabbinn 21. júní - 22. júlí

Einhverra breytinga er að vænta á starfi og og starfsvettvangi á árinu, en þær verða að líkindum ekki stórbrotnar. Áskoranirnar tengjast einkum þeim sem sem krabbinn starfar með og tengslum hans við þá, ekki í vinnunni sem slíkri. Ekki sofna á verðinum samt sem áður, á þarnæsta ári verður nóg að glíma við. Breytingar á einkahögum byrja í febrúar og fara vaxandi með tímanum, allt þar til í ágúst, ekki síst á sviði fjármála og fjárfestinga. Þær gætu orðið róttækar. Reyndu að vera raunsær. Krabbinn glímir ef til vill við of mikla bjartsýni og óraunhæfar væntingar í einkalífi og rómantík. Árið sem fer í hönd mun aðallega snúast um sambönd. Krabbinn þarf að vera afdráttarlaus við aðra og mun ekki eiga auðvelt með að rækta heilbrigð tengsl. Áhrifa þessa tímabils mun gæta um ókomna tíð.Heilsufar eða sjálfsagi er ekki ofarlega á blaði. en undir árslok öðlast krabbinn hugsanlega nýjan skilning og fer að velta lífi sínu og brautinni sem hann er á fyrir sér, það veltur þó á ýmsu. Vinir og félagar í stærri hópi gætu valdið þér vonbrigðum, eða orðið til mikillar gleði, en bara ef þú gefur færi á þér, ekki síst í febrúar og ágúst. Valdatafl í samböndum eða vinnu er líklegt og er einungis fyrirboði miklu stærri breytinga í lífi krabbans sem munu eiga sér stað á næstu 12 árum. Krabbinn þarf að gæta þess að boðskipti í nánum samböndum í vinnu og einkalífi truflist ekki. Þú verður að tala skýrt, skuldbinda þig til langframa og vera mjög raunsær. Ekki geta allir staðið undir óraunhæfum væntingum. Hvað fjármálin varðar gætu hindranir komið um mitt ár fram í nóvember. Farðu varlega í því að taka á þig nýjar fjárhagslegar skuldbindingar.

Wizard Gleðilegt ár allir þarna úti, og takk fyrir árið 2007.

Mankind


Hvernig væri lífið án tónlistar ?

Ég leið hér um íbúðina með ryksuguna og moppuna í hendi og íslenska tónlist í eyrunum og er með tónlistina enn. Búin að gera íbúðina rosa fína eftir að ég bakaði stóran stafla af pönnukökum, ekki af neinu sérstöku tilefni, heldur bara fyrir þriggja ára músina mína, hann langaði svo í pönnsu. Það sem ég ætlaði að segja ykkur frá er að ég gaf manninum mínum í jólagjöf svona þráðlaus heyrnartól til þess að hlusta á Discovery Channel ofl í sjónvarpinu, hann þarf að hafa það soldið hátt þessi elska, en ég sá við því, að ég þurfi að hlusta á þetta í botni. Þessar græjur er ég með á höfðinu og nýt tónlistar úr tölvunni af www.tonlist.is , ég hef verið áskrifandi hjá þeim í nokkra mánuði og verð ég að segja að það eru forréttindi að hafa aðgang að öllum þessum íslensku lögum, ég er svo mikill íslendingur í mér, íslenskan er mitt mál og ég er góð í þvíJoyful.  Maður býr sér til lagalista og getur svo spilað þá, eða bara heila plötu í einu.  Feðgarnir skelltu sér á jólaball hjá frímúrurum hér á Akranesi, ég ákvað að vera í fríi þetta árið,  síðustu tvö árin hef ég sungið fyrir gesti á jólaballi hjá frímúrurum á Ísafirði, ég hefði samt alveg verið til í að skella mér vestur í heimsókn og syngja hjá þeim, en veður og færð eru ekki góð þessa dagana. Ég fékk smá saknaðarsting í magann áðan þegar ég var að hlusta á tónlist, merkilegt hvað maður tengir bæði hugsanir og minningar við ákveðin lög. Lagið Góða ferð með Stebba og Eyfa minnir mig alltaf á  frábærar kvöldstundir og góða tónleika á Hótel Ísafirði, í góðum félagskap, ég og Gestur vinur minn erum sérlegir aðdáendur Eyjólfs Kristjánssonar og hlustum yfirleitt á plötuna þeirra þegar við hittumst.  Hrafnhildur og Gestur saknaðarkveðjur til ykkarKissing.

Annars voru jólin bara fín og maður búin að hafa það gott,  ég fékk bók í jólagjöf sem ég var að vona að ég fengi, hún heitir Leyndarmálið (The secret)  ég hef tröllatrú á þessari bók, held reyndar að ég hafi að hluta til alltaf lifað eftir lögmálum hennar, en ætla að drekka í mig meiri fróðleik úr henni. Ég er dáldið fylgjandi svona andlegum málum og hugsunum.

Jæja nú eru mennirnir mínir komnir heim af ballinu, ætla að tala við þá.  Kossar og knús til ykkar.

Ykkar mannkind

 


Vetrarsólstöður á morgun

Dagurinn í dag er einhvern veginn bjartari en dagurinn í gær og margir þar á undan, þvílíkt myrkur sem er búið að vera, en jólaljósin ná að lýsa mikið upp, en ég vil samt ekki fá snjóBlush, börnunum mínum finnst ég vera svo vond að hata svona snjóinn eins og ég geri, dæturnar skilja þetta ekki og óska þess að það fari að snjóa núna fyrir jólin, ég skal svo sem ekki mótmæla því að fá föl rétt yfir jólin, en svo takk búið bless. Ekki meira allavega á mínu Vesturlandi. Ég er afskaplega sátt við veturinn það sem af er, held að ég muni það rétt að einungis hafi ég þurft að keyra í föl þrisvar sinnum, en menn hér á svæðinu segja að haustið og veturinn hafi aldrei verið svona vindasöm og blaut, maður fær bara að kynnast þessu strax og er farið að minnka að ég blóti rokinu hér, ég gleðst þess meira og fæ svona heimatilfinningu þegar lognið er ekki að flýta sér mjög mikið.

Ég er ekki komin með jólastressið í mig ennþá, en á þó eftir að gera nokkra hluti á framkvæmdalistanum, en það verður nú gott að fá helgi áður en hátíð gengur í garð, þannig að eftir vinnu í dag verður sett í fluggírinn og hnýtt endahnútinn á þetta. Við verðum 8 á heimilinu þegar kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringja á aðfangadag, því tengdamamma og tengdapabbi verða hjá okkur og Klara dóttir þeirra kemur frá Danmörku og slæst í hópinn. Þannig að fyrst við verðum með matargesti þá ÆTLA ég að vera skipulögð og vera fyrr á ferðinni núna en oft áður, þá meina ég í að þrífa og setja heimilið í sparibúning og reyna að njóta þess að vera til.

Þessi jól verða öðruvísi  hjá okkur í ár eins og alltaf þegar fólk flytur sig á milli landshluta, við förum líklega í fleiri en eitt jólaboð sem hefur ekki verið mikið gert af í gegnum tíðina nema þegar amma gamla hafði jólaboðin í Túngötunni.  Það er mikill munur að vera komin nær fólkinu okkar, t.d. vorum við hjá pabba og Herdísi á síðustu helgi í svaka jólaundirbúningi að fletja, skera út og steikja laufabrauð með sonum Herdísar og þeirra konum og börnum,  alls tuttugu manns og gerðum við 90 laufabrauðskökur, ég stóð við að fletja út  ásamt Herdísi á meðan hinir skáru út, svo var þetta fína jólahlaðborð á eftir með heimagerðu rúgbrauði og ýmsu góðgæti, þetta fannst mér æðislegt og er farin að hlakka til að endurtaka þetta á næsta ári.

Mikið verð ég ánægð þegar þessari vinnuviku lýkur í dag og þá getur maður einbeitt sér að því að njóta jólaundirbúningsins að fullu án þess að vinnan sé að trufla mann við það hehe.

Þangað til næst,  Mannkindin mee

Ps. Helga Salome, njóttu dvalarinnar fyrir vestan í botn og skilaðu kveðju til fjallanna okkar.


Sólhattur í skammdeginu

Jæja þá fer fyrsta bloggið í loftið hér með rokinu, nei það er nú ekki rok í dag ótrúlegt en satt.

Það ganga hér um landið hinar og þessar pestir og ég held svei mér þá að við fjölskyldan séum í áskrift, hálsbólgan kemur og fer eins og lægðirnar upp að landinu og hausverkurinn liggur eins og þoka. Ég skellti í mig einu glasi af sólhatti (uppleysanlegri töflu) og vona ég að þessi lægð sem ég finn að er að reyna að bíta á mig komi ekki. Allt fínt að frétta annars, við mæðgur bökuðum eina smákökusort í gær, algjörlega bestu súkkulaðibitakökur sem ég hef smakkað. í boði eldhus.is  http://eldhus.is/eldhus.php?func=birtauppskrift&id=459

Bjúgnakrækir kom í nótt og var sonur minn alveg viss um að hann fengi bjúga eða bjúgu frá honum í skóinn því hann fékk sko skyr frá Skyrgámi, ég var nú bara fegin að hann færi nú ekki að troða illa lyktandi unninni reyktri kjötvöru í skóinn hjá barninu, það var sem betur fer bara gulur jeppi á stórum dekkjum sem drengurinn fann í skónum.

Jæja látum þetta prufublogg duga í bili.  Vona að fólk njóti aðventunnar og tapi sér ekki í jólastressi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband