Græna þruman heillar aftur landann í Söngvakeppninni

Ljósið á Þorranum 2020 (frá Euro blóminu)

Þessi vetur hefur verið þannig að lægðirnar hafa heimsótt landið okkar hver á eftir annarri og meira að segja þolinmóðasta fólkið sem lætur smá veður ekki trufla sig er alveg til í að veturinn fari að taka pokann sinn. Nú er Góan byrjuð og bjartara með hverjum deginum.

Ljósið í Þorrablótinu öllu sem hefur skemmt landanum síðan í byrjun janúar er að mínu mati tilhlökkunin mín um Söngvakeppnina árlegu. Þetta er svona hátíð sem ég elska pínulítið meira en jól og páska, sumir skilja ekki þessa dellu í mér, en frá því lögin eru kynnt fylgist ég með öllu sem viðkemur undirbúningi keppninnar og spila lögin aftur og aftur.

Lögin sem kepptu í ár eru rosalega góð og dáist ég að öllu þessu fólki sem leggur sína vinnu og krafta í að búa þetta allt saman til alveg frá lagi og texta í hljóðfæri söng og útsetningar.

Þau lög sem komust áfram til að keppa á úrslitakvöldinu 29. febrúar voru alveg 100 % og eru akkúrat lögin sem ég hefði kosið en ég kaus ekki í símakosningunni, þetta voru bestu lögin og bestu flytjendurnir og eiga þau svo skilið að vera á þeim stað, einnig lagið sem var valið sem eitt lag enn (Echo með Nínu).

Hef lúmskt gaman að fólki sem hefur ekki áhuga á söngvakeppnum og ef þetta berst í tal þá kemur alltaf sama romsan og fólk segir alltaf: þetta eru alltaf svo glötuð lög, ekkert varið í þetta í ár, þá bendi ég viðkomandi á að við þurfum nú ekkert að dæma lögin nema vera búin að hlusta á þau og við verðum að bera ákveðna virðingu fyrir þeim sem leggja sína vinnu í að búa til tónlistina í landinu okkar og koma sínu á framfæri, húrra fyrir ykkur lagahöfundum og flytjendum.

Ég get ekki beðið eftir að horfa á úrslitin og í raun elska ég öll þessi lög og held því fram að þetta sé með sterkustu og jöfnustu úrslitum sem hafa verið lengi.

Þá er komið að mínum vangaveltum og spám:

Röðin á laugardaginn er svona:

Meet me halfway /Klukkan tifar

Flytjendur:
Ísold og Helga
Lagahöfundar:
Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson
Textahöfundur, íslenska:
Stefán Hilmarsson
Textahöfundar, enska:
Birgir Steinn Stefánsson, Ragnar Már Jónsson og Stefán Hilmarsson

Rosalega flott lag frá höfundum og flutt af nánast óþekktum söngkonum sem komu svo sannarlega á óvart, Ísold er með einstakan tón í röddinni sem fer vel í þessu lagi og Helga neglir þetta bæði sönginn og framkomuna á sviðinu, virkilega vel gert og er ég spennt að sjá hvernig þær breyta atriðinu sínu og raddirnar þeirra hljóma vel saman. Hef ekki trú á að lagið komist í einvígið og myndi ekki ná í gegn í keppninni í maí.

 

Think about things /Gagnamagnið

Flytjandi:
Daði og Gagnamagnið
Lagahöfundur:
Daði Freyr
Textahöfundur, íslenska:
Daði Freyr
Textahöfundur, enska:
Daði Freyr Pétursson

Ég var aðeins hrædd um að það kæmi endurtekið efni frá Daða og Gagnamagninu og fannst lagið pínu líkt laginu frá því 2018 en þegar ég hlustaði á þau bæði þá var niðurstaðan mín sú að lagið í ár er miklu betra lag. Ég er greinilega með smá nörda húmor í mér því ég elska allt sem Daði Freyr gerir, hann hittir af einhverjum ástæðum alltaf í mark með þessu látlausa og hálf vandræðalega atriði, þetta er svo úthugsað og heiðarlegt og með geggjuðum húmor á bak við, hann hefur eitthvað sem flestir elska. Fyrir utan hvað tónlistinn hans er æðislegt tölvupopplegt eighties thing. Svo er hann svo góður söngvari sem ég held að ekki allir sjái, t.d. allar ábreiðurnar sem hann hefur tekið og flutt á stórkostlegan hátt. Það er hálf þjóðin farin að dansa Gagnamagns dansinn, elska svona áhrif. Ég fer ekkert í felur með hrifningu mína á þessu atriði, ég er alveg á Daða vagninum. Ekki sannfærð um að Evrópa gleypi strax við þessu frekar en Silvíu Nótt eða Pollapönk en tónlistinn er geggjuð. Geri ráð fyrir að þau komist í einvígið.

Echo /Ekkó

Flytjandi:
Nína
Lagahöfundur:
Þórhallur Halldórsson og Sanna Martinez
Textahöfundar, íslenska:
Þórhallur Halldórsson og Einar Bárðarson
Textahöfundar, enska:
Þórhallur Halldórsson, Christoph Baer, Donal Ryan, Sanna Martinez

Mjög flott og vel gert lag sem á eftir að njóta vinsælda og ég dáist að Nínu þessari ungu og glæsilegu söngkonu sem á framtíðina fyrir sér, hún er með stáltaugar og klikkaði ekkert í atriðinu því ég veit hvað þetta er mikið álag að standa á svona sviði og hvað þá í fyrsta skipti í beinni útsendingu. Ég geri ekki ráð fyrir að þetta sé Eurovision lagið okkar svo mér finnst að það eigi ekki að fara í einvígið.

Oculis videre

Flytjandi:
Íva
Lagahöfundar:
Íva Marín Adrichem og Richard Cameron
Textahöfundar, íslenska:
Íva Marín Adrichem og Richard Cameron
Textahöfundar, enska:
Richard Cameron

Dáleiðandi taktur og á vissan hátt eitthver gamall íslenskur bragur á tónlistinni í byrjun,en svo vex lagið og Íva heldur áfram að dáleiða áhorfendur og hlustendur. Ég held að í þessu lagi sé exfactor sem gæti komið okkur langt í stóru keppninni, ef Íva nær að vera öruggari og gera eitthvað við hendurnar á sér og atriðið verði betur útfært þá á hún fullt erindi til að fara fyrr Íslands hönd til Rotterdam í maí. Hún ætti að komast auðveldlega í einvígið ef vel gengur með flutninginn.

Almyrkvi

Flytjandi:
DIMMA
Lagahöfundur:
DIMMA
Textahöfundur, íslenska:
Ingó Geirdal

Ég er aðeins í vandræðum með Almyrkvan hjá Dimmu, veit ekki alveg hvap mér finnst þetta lag er grípandi kraftmikið lag og væri sigurstranglegt ef það væru ekki svona mörg góð lög eða jafnvel betri. Ég yrði alveg ánægð og stolt ef þeir færu í stóru keppnina í maí en ekki viss með árangur. Þeir gætu endað í einvígi við Ívu eða Daða því þeir eiga stóran aðdáendahóp.

Lokaorð

Ég held að Íva sigri ef flutningur verður góður annars er það græna þruman og hæfileikabúntið Daði Freyr sem tekur þetta.

Kæru vinir njótið veislunnar á laugardaginn, ég elska þetta.

Euroblómið fyrir vestan


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband