21.12.2007 | 13:31
Vetrarsólstöður á morgun
Dagurinn í dag er einhvern veginn bjartari en dagurinn í gær og margir þar á undan, þvílíkt myrkur sem er búið að vera, en jólaljósin ná að lýsa mikið upp, en ég vil samt ekki fá snjó, börnunum mínum finnst ég vera svo vond að hata svona snjóinn eins og ég geri, dæturnar skilja þetta ekki og óska þess að það fari að snjóa núna fyrir jólin, ég skal svo sem ekki mótmæla því að fá föl rétt yfir jólin, en svo takk búið bless. Ekki meira allavega á mínu Vesturlandi. Ég er afskaplega sátt við veturinn það sem af er, held að ég muni það rétt að einungis hafi ég þurft að keyra í föl þrisvar sinnum, en menn hér á svæðinu segja að haustið og veturinn hafi aldrei verið svona vindasöm og blaut, maður fær bara að kynnast þessu strax og er farið að minnka að ég blóti rokinu hér, ég gleðst þess meira og fæ svona heimatilfinningu þegar lognið er ekki að flýta sér mjög mikið.
Ég er ekki komin með jólastressið í mig ennþá, en á þó eftir að gera nokkra hluti á framkvæmdalistanum, en það verður nú gott að fá helgi áður en hátíð gengur í garð, þannig að eftir vinnu í dag verður sett í fluggírinn og hnýtt endahnútinn á þetta. Við verðum 8 á heimilinu þegar kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringja á aðfangadag, því tengdamamma og tengdapabbi verða hjá okkur og Klara dóttir þeirra kemur frá Danmörku og slæst í hópinn. Þannig að fyrst við verðum með matargesti þá ÆTLA ég að vera skipulögð og vera fyrr á ferðinni núna en oft áður, þá meina ég í að þrífa og setja heimilið í sparibúning og reyna að njóta þess að vera til.
Þessi jól verða öðruvísi hjá okkur í ár eins og alltaf þegar fólk flytur sig á milli landshluta, við förum líklega í fleiri en eitt jólaboð sem hefur ekki verið mikið gert af í gegnum tíðina nema þegar amma gamla hafði jólaboðin í Túngötunni. Það er mikill munur að vera komin nær fólkinu okkar, t.d. vorum við hjá pabba og Herdísi á síðustu helgi í svaka jólaundirbúningi að fletja, skera út og steikja laufabrauð með sonum Herdísar og þeirra konum og börnum, alls tuttugu manns og gerðum við 90 laufabrauðskökur, ég stóð við að fletja út ásamt Herdísi á meðan hinir skáru út, svo var þetta fína jólahlaðborð á eftir með heimagerðu rúgbrauði og ýmsu góðgæti, þetta fannst mér æðislegt og er farin að hlakka til að endurtaka þetta á næsta ári.
Mikið verð ég ánægð þegar þessari vinnuviku lýkur í dag og þá getur maður einbeitt sér að því að njóta jólaundirbúningsins að fullu án þess að vinnan sé að trufla mann við það hehe.
Þangað til næst, Mannkindin mee
Ps. Helga Salome, njóttu dvalarinnar fyrir vestan í botn og skilaðu kveðju til fjallanna okkar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.