Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

okkur datt í hug....

að skella okkur keyrandi til Ísafjarðar og erum þar núna, á Engjavegi hjá S og S.Rosalega gaman að hitta alla og sérstaklega Guðjón Ólaf litlu dúllu.  Andrea fær bílprófið á miðnætti og þá ætlum við að lána henni Vagninn til að rúnta á. Baldur er í góðu yfirlæti í Stakkanesi og Fríða í bænum að hitta vini sína. svo ætlum við á nýársfagnað hjá  matarklúbbnum okkar í kvöld.

Við keyrum svo suður á morgun, á afmælisdegi frumburðarins.

Bestu kveðjur til allra. 


Nýtt ár, nýjir tímar, nýjar áherzlur

Komið árið 2008,  skrítið hvað það er stutt síðan árið 2000 var.  Ég verð að koma með stutta upprifjun á árinu 2007 eins og almennilegur bloggari, en miðað við mitt gleymsku-ástand alltaf þá gæti ég gleymt einhverju mikilvægu, endilega látið mig vita ef þið munið betur en ég.

Janúar 2007

Andrea 16 ára,  6. janúar og fær æfingaakstursleyfi, geggjaður matarklúbbur haldinn hjá okkur, grafin grágæsabringa í forrétt,  strúta-kengúru-hreindýra-kjöt í aðalrétt, nammi namm. Eðalklúbbur þar sem karlarnir sjá um að elda dýrindis rétti.

Matarklúbbur

Hildur Elísabet afmæli 14. jan.  Hrafnhildur vinkona mín afmæli 26. janúar

febrúar 2007

Ég fór á Dale Carnegie námskeið á vegum Glitnis, það var æðisleg upplifun (það ætti að senda allt mannkyn á svona námskeið)    http://www.dale.is/ .    Á bolludaginn fóru börnin að það sem við Vestfirðingar köllum að Maska, Baldur fékk að fara með systur sinni og vinkonum. Hann var að sjálfsögðu Íþróttaálfurinn.Maskar 2007

 

 

 

 

 

mars 2007

Keyrðum frá Ísafirði til Reykjavíkur í lok febrúar og vorum með íbúð í vesturbænum í viku og viku hjá Dísu og Ingimar í mosó, gerðum margt skemmtilegt, ég var að vinna hjá Glitni í Lækjargötu, héldum upp á 13 ára afmælið hennar Fríðu 3. mars heima hjá Dísu, pabbi átti afmæli 2. mars. Veðrið var milt og gott og gátum við ekki annað en viðurkennt að okkur líkaði það betur en veturinn sem var fyrir vestan á meðan. Mamma átti afmæli 26. mars. Við hjónakornin flugum svo með Baldur með okkur í lok mars á árshátíð hjá Glitni í Laugardalshöll, hann fór í pössun til ættingja og við gistum á Grand hotel uppi á 8. hæð minnir mig í splunkunýrri byggingu, hrikalega flott allt saman. Skemmtileg ferð með góðu fólki.

apríl 2007

Við vorum enn stödd í borginni og Guðrún systir varð fertug 2. apríl og hélt skemmtilega veislu 1. apríl, við systurnar sungum saman fyrir gestina, höfðum fyrir veisluna farið saman í söngtíma hjá Regínu Ósk, það var æðislegt, Guðrún hafði verið í söngtímum hjá henni og tók hún okkur í einn extra systra-tíma.  Svo var haldið heim til Ísafjarðar daginn eftir.  Þá komu Páskar seinna í vikunni og Baldur Freyr varð 3 ára 7. apríl, en fjölskyldan lá nánast alla Páskana eða allavega ég og fleiri svo að barnið fékk enga afmælisveislu og við misstum af Aldrei fór ég suður hátíðinni, aðra eins ælupest hef ég og fleiri varla fengið á ævinni, held að ég hafi fengið svona flensu fyrir kannski 10 árum, maður verður svo veikur að maður getur hreinlega ekki staðið, heldur skríður ef maður þarf að fara fram úr rúminu.  Seint í apríl fór ég svo í borgina aftur og var þá í viku til að hjálpa mömmu að pakka niður og flytja, hún var að skipta um íbúð, keypti sér æðislega íbúð rétt hjá Smáralind, við Dísa vorum rosalega öflugar að pakka með henni og henda, ég vann hjá Glitni í Lækjargötu á daginn og pakkaði eftir vinnu.

maí 2007

Gullfiskurinn okkar varð 5 ára.  Fórum í sumarbústað við golfvöllinn á Hellu í lok maí í viku með góðu vinafólki.

júní 2007

Fengum úthlutaðri lóð á Akranesi, ákváðum að selja húsið á Ísafirði, seldum strax án þess að auglýsa, samþykktum afhendingatíma 28. júní, fengum leiguhúsnæði á Akranesi og leikskólapláss, ég átti afmæli 22. júní,  losuðum húsið á mettíma, yfirgáfum Ísafjörð 28. júní kl. 17:05, (það var ekki auðveld stund) Andrea varð eftir á Ísó. Fluttum inn í glæsilega leiguíbúð sem við leigjum í 10 mánuði. Ég fór í langt sumarfrí hjá Glitni, leitaði helst að vinnu á Akranesi. Daníel Orri átti afmæli 3. júní.

Júlí 2007

Gott veður þetta sumar, þetta var dáldið skrítinn tími, smá söknuður í gangi, og aðlögun á nýjum stað. Gaman að vera komin svo nálægt ættingunum. Díza átti afmæli 16. júlí, Stefán bróðir átti afmæli 19. júlí

Ágúst 2007

Fékk vinnu, hætti hjá Glitni, byrjaði að vinna hjá Vinnumálastofnun 27. ágúst, þá voru börnin komin í skóla og leikskóla. Ánægð í vinnunni.  Stefán og Sirrý eignast prins 28. ágúst. Við unnum að því að hanna einbýlishús með aðstoð frá góðu fólki og vorum að skoða frá hvaða fyrirtæki við myndum kaupa einingar í húsið. Andrea flutti norður með Kára sínum og byrjaði í VMA, ég keyrði norður með hana og Fríðu í lok ágúst og hjálpaði henni að koma þeim fyrir í íbúðinni. Gestur vinur okkar átti afmæli 18. ágúst. Tengdapabbi átti afmæli 31. ágúst.

guðjón

 

 

 

 

 

September 2007

Fórum vestur 14. september í heimsókn til að sjá litla frænda. Ég flaug svo aftur vestur 22. september því þá var hann skírður. Fyrsta skóflustungan á lóðinni var tekin í ausandi rigningu og roki um miðjan september, stór stund sem við vorum búin að bíða eftir allt sumarið. Tengdamamma átti afmæli 22. september.

Október 2007

Gylfi átti afmæli 6. október og þann dag var byrjað að slá upp fyrir sökkli á lóðinni. Loksins var þetta í okkar höndum og ekki meiri bið í bili. Veðrið var nú ekki gott þennan mánuð frekar en í september, rok og rigning flest alla daga, en ekki daginn sem við byrjuðum.  Við Gylfi skelltum okkur vestur í Ísafjarðardjúp 20. október til að fara í óvenjulegan surprise matarklúbb sem varð aðeins öðruvísi en ætlað var, en allt fór vel, keyrðum heim daginn eftir frá Ísafirði, reynslunni ríkari. Kári átti afmæli 28. október. 

nóvember 2007

Andrea kom í heimsókn til okkar, við Gylfi fórum Vestur í heimsókn á fína fína árlega ballið þann 10. nóvember. Gylfi var rosalega duglegur að vinna í sökklinum á lóðinni og var platan steypt 26. nóvember í 8 stiga hita. Fórum í skemmtilegt matarboð hjá Heiðu og Lúther og hittum þar Lindu, Gunnar, Dísu og Ingimar, namm, flottur matur.  Rúsínan í pylsuendanum var svo 30. nóvember þá fékk ég bíladellukonan  afhentan splunkunýjan bíl (í fyrsta sinn) frá Ingvari Helgasyni, Subaru Legacy Sedan,  við settum jeppann upp í því við höfum lítið við hann að gera hér á flatlendinu. Vá hvað þetta var gaman, ég sá um ferlið frá A - Ö og fékk mikið kikk út úr því að semja við bílasalann, þeir hjá I.H. fá toppeinkunn frá mér, góð þjónusta og ég er ekki að grínast, bíllinn beið eftir okkur glansandi í upplýstu glerbúri, það lá við að það liði yfir mig, svo keyrðum við bara út, algjör snilld. Mæli með www.subaru.is

legacy_01

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Desember 2007

Jólaundirbúningur, Gylfi var svakalega duglegur að vinna í húsamálunum, og einingarnar af húsinu komu svo 6. desember og húsið reis á nokkrum dögum, húsið keyptum við frá Akri á Akranesi, og voru þeirra menn að reisa og setja þakið á. Andrea kom til okkar í jólafrí 12. desember. Þessi mánuður var fljótur að líða og mikið að gerast. Reisugilli í húsinu 12. desember.  Daginn fyrir Þorláksmessu lokuðum við húsinu með plötum og plasti fyrir glugga og hurðir, rétt áður en fór að snjóa. Desember var dimmur og veðrið ekkert allt of skemmtilegt, blautt og hvasst, eins og allt haustið. Desember var líka tónleikamánuður í mínu lífi, fór á Jólagesti Björgvins í Laugardalshöll með Dízu bestu "systir" og líka á Frostrósir með henni og Andreu, þetta voru æðislegir tónleikar báðir. Árni Pétur átti afmæli 11. des. Sirrý átti afmæli 27. des. og Alexander 28. desember.

Árið einkenndist fyrri partinn af ferðalögum og dvölum á suðvesturhorninu, sem ég tel að hafi verið nokkurs konar aðlögun af því sem kom svo á eftir. Ekki er annað hægt að segja en að árið hafi verið viðburðaríkt og spennandi, bæði sætt og súrt. En allir eru hraustir og glaðir það er fyrir mestu. Svo vona ég að árið 2008 verði jafn gott og 2007, hjá okkur og ykkur öllum. Ég vona að þið hafið haft gaman að þessu hjá mér.

Hilzen frá mér í bili


Helstu viðburðir ársins 2007 hjá mér

Gleðilegt nýtt ár, ég er að raða saman, helztu viðburðum ársins 2007 í mínu lífi. Næ vonandi að klára í kvöld.

Rosalega var erfitt að vakna í vinnu í morgun, eins gott að það séu bara  3 vinnudagar í vikunni.Wake up


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband