22.1.2008 | 22:17
Nú skal taka upp betri siði
Jæja í gær hófst niðurskurður á mínu óholla fæði, nú skal ég fara að lifa á betra fóðri og ætla að vera dugleg að skrifa hvernig mér gengur og líður, nú þýðir ekki að liggja á meltunni og jórtra allan daginn og öll kvöld.
Ég fékk mér Herbalife shake í morgunmat í gær og svo skyrdrykk með bláberjabragði (án viðbætts sykurs jibbí), appelsínu, kiwi og hrökkbrauð með osti í hádeginu (ég veit að sumir hugsa: vá hvað þetta er mikið) en maður verður nú að jórtra sig niður, grjónagrautur var hafður í kvöldmat ásamt ristuðu brauði. Nartaði smá í gærkvöldi .
Svo er það dagurinn í dag: Herbalife shake í morgunmat, og svo skyrdrykk með bláberjabragði, kiwi og tvær hrökkbrauð með osti í hádeginu, kjúklingaborgara í kvöldmat með léttmajonesi.
Ég verð að viðurkenna að mér líður 100 sinnum betur en fyrir nokkrum dögum síðan. Svo set ég hreyfingu inn í þetta þegar andinn kemur yfir mig (hreyf-andinn). Svo þetta er alveg ágæt byrjun, sem átti reyndar að byrja fyrir 20 dögum, en betra er seint en aldrei.
Svo nú er bara að halda sig á beinu brautinni og sviga fram hjá sykur-púkanum sem er alltaf að reyna að trufla mig.
Nýtum litlu verkamennina sem starfa inni í okkur í dagvinnu, látum þá fá rétt hráefni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.1.2008 | 09:20
Nú er úti veður vott
Vá hvað það var hvasst fyrir utan blokkina hjá okkur í morgun, ég hélt ég myndi takast á loft (þá má vindurinn nú vera sterkur) með Baldur í fanginu, svo var líka rigning og hálka.......Gylfi kom og bjargaði okkur og hélt á Baldri. Maður var náttúrulega búin að gera hárið rosa fínt fyrir vinnudaginn, en nei nei....þegar ég kom inní bíl þá stóð hárið allt út í loftið he he bara eins og ég hefði fengið raflost.
En þetta var nú í lagi, ég komst heilu og höldnu í vinnuna og leikskólann og lúkkið er bara glæsilegt, það má segja að hárið sé vel blásið í dag.
Allt fínt að frétta hjá okkur. Við ætlum á Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins á föstudagskvöldið með Sóley og fleira fólki, ég er rosa spennt fyrir því, hef aldrei farið áður, mér hefur skilist að yngra fólkið sé orðið duglegt að mæta, eða er það kannski bara að við tilheyrum ekki lengur "yngra" fólkinu heldur "milli" eða "eldra" fólkinu ha ha ha. Manni finnst maður alltaf vera jafn ungur. Frétti einmitt í fyrra að það hafi verið góð mæting frá model 70.
Bið að heilsa
Lofthæna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.1.2008 | 11:23
Laugardagur, mmmm, gott að vera í helgarfríi
Set hér inn eina mynd af húsinu okkar sem var tekin 22. desember, þegar búið var að loka húsinu.
Ég er að hugsa um að skella mér í borgina með börnin, kíkja aðeins á ættingja og í búðir, svo ætlum við síams systur Dizzy og ég og mennirnir okkar að elda saman po Skagen. Það verður nú gaman.
Heyrumst, verið góð við hvort annað yfir helgina og munið! Engar neikvæðar hugsanir.
M.K
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2008 | 14:37
Gott að hafa að leiðarljósi á hverjum degi
Þegar ég var á Dale Carnegie námskeiðinu í fyrra fengum við lítið spjald eins og nafnspjald að stærð, öðru megin eru skilaboð frá bjartsýnisklúbbnum og hinum megin frá svartsýnisklúbbnum. Ég tek upp þetta spjald með gleraugunum mínum á hverjum degi í vinnunni og set fyrir framan mig.
ÞETTA VERÐUR GÓÐUR DAGUR.
MÉR ERU ALLIR VEGIR FÆRIR.
Í DAG ER MITT TÆKIFÆRI.
Mér dettur ekki í hug að lesa skilaboðin frá svartsýnisklúbbnum, enda á ég bara BJARTSÝNISGLERAUGU, ég henti hinum fyrir löngu .
Ég vildi bara deila þessu með ykkur.
M.K
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.1.2008 | 08:59
Já það er nú það
Sóley spyr hvort ég sé eitthvað að spá í Sólarkaffi Ísfirðingafélagsins http://www.isfirdingafelagid.net/
Svarið er já, eiginlega var ég að fatta að það er sama kvöldið og við ætluðum að hittast gæzkan, hvernig líst þér á það Ísfirðingur? Svo benti Díza mér á það að við værum nú allar Ísfirðingar kindurnar í Hannó-West-South, en formaðurinn sem er frá Seltjarnarnesi, en er núna Mosó-búi en á föðurætt að vestan, hún verður í sinni fyrstu utanlandsferð (á þessu ári hehe) og þær verða fleiri.....og fleiri....meira að segja ég ætla með henni í allavega eina ferð á árinu , sú ferð verður farin í apríl, seinni fermingarferð okkar Zíamz-tvíbba (ásamt fermingarbarni nr. 2 og kannzki fermingarbarni nr. 1).
Þannig að við verðum ekki allar í borginni um helgina sem Sólarkaffið verður haldið.
Við fjölskyldan erum búin að liggja ÖLL í magaflensu fyrir og um helgina síðustu, voða gaman, ég var í því að þrífa upp ælu þrjá daga í röð takk fyrir takk, og vonaði svo heitt og innilega að ég myndi ekki fá þetta eða allavega sleppa við að æla, og hjúkk við Gylfi sluppum við að æla en okkur leið bölvanlega í staðinn, en allt er betra en að æla...oj. Ég var frá vinnu hálfan föstudaginn vegna Baldurs og svo var ég slöpp á mánudag, en þetta er allt að koma og allir að verða mjög sprækir.
En við fengum samt góða gesti um helgina þrátt fyrir flensuna, Hrafnhildur og Gestur komu og gistu hjá okkur á laugardagskvöldið og það var að sjálfsögðu eldaður góður og flottur matur, humar og svínalund og heimagerður ís í eftirmat, og auðvitað smá rauðvín með matnum. Þetta var æðislegt kvöld þrátt fyrir að sumir voru lasnir. Svo héldu þau heim á Ísafjörðinn á sunnudag um hádegi, elsku vinir takk fyrir að koma til okkar.
Nú erum við bara að bíða eftir gluggum og hurðum í húsið okkar og þá er hægt að fara að gera eitthvað af alvöru inni eins og að einangra.
Jæja læt hér staðar numið í bili.
M.K (Mannkindin)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.1.2008 | 21:06
Bloggvinir og lífið
Ég er svona hægt og rólega að eignast bloggvini, takk þið tvö sem eruð orðnir bloggvinir mínir. Annars er lítið að frétta, ég er svo löt þessa dagana, langar að borða bara nammi og halda áfram að vera löt, en veit að það gengur ekki. Ég er búin að kaupa birgðir af ávöxtum og grænmeti bæði hér heima og í vinnuna svo vítamínin fara að virka á mig. Svo verð ég að fara að hreyfa mig .
Veðrið er bara nokkuð gott þessa dagana hér á Skaganum, hægviðri en frost.
Bið að heilsa í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.1.2008 | 09:00
Þetta söng ég á leiðinni Vestur
Lýsa geislar um grundir,
glóir engi og tún
Unir bærinn sér undir,
ægifagurri brún.
Þar ég ungur að árum,
átti gleðinnar spor.
Hljóp um hagana,
heilu dagana,
bjart er bernskunnar vor.
Æskuvinirnir allir,
unna dalanna kyrrð.
Hulduhamarinn,
hóllinn, tindurinn,
lindin, lækurinn,
litli kofinn minn.
Nú er hugurinn heima,
hjartað örara slær
Stríðar minningar streyma,
stöðugt færist ég nær.
Skip mitt líður að landi,
létt ég heimleiðis sný.
Ljúfu leiðina,
litlu heiðina,
glaður geng ég á ný.
Mikið var gaman að koma í heimsókn á Ísafjörð, en það kom mér þægilega á óvart hvað mér fannst gott að koma aftur heim á Akranes, ég fann það að hér á ég heima og ég elska þennan stóra bæ, og ótrúlegt en satt þá hefur ekki verið brjálað rok síðan ég kom heim.
ÉG ER SÁTT
Ég fór ekki í neinar heimsóknir á Ísafirði nema til ættingja, svo heimsæki ég fleiri í næstu ferð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.1.2008 | 17:38
okkur datt í hug....
að skella okkur keyrandi til Ísafjarðar og erum þar núna, á Engjavegi hjá S og S.Rosalega gaman að hitta alla og sérstaklega Guðjón Ólaf litlu dúllu. Andrea fær bílprófið á miðnætti og þá ætlum við að lána henni Vagninn til að rúnta á. Baldur er í góðu yfirlæti í Stakkanesi og Fríða í bænum að hitta vini sína. svo ætlum við á nýársfagnað hjá matarklúbbnum okkar í kvöld.
Við keyrum svo suður á morgun, á afmælisdegi frumburðarins.
Bestu kveðjur til allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2008 | 22:17
Nýtt ár, nýjir tímar, nýjar áherzlur
Komið árið 2008, skrítið hvað það er stutt síðan árið 2000 var. Ég verð að koma með stutta upprifjun á árinu 2007 eins og almennilegur bloggari, en miðað við mitt gleymsku-ástand alltaf þá gæti ég gleymt einhverju mikilvægu, endilega látið mig vita ef þið munið betur en ég.
Janúar 2007
Andrea 16 ára, 6. janúar og fær æfingaakstursleyfi, geggjaður matarklúbbur haldinn hjá okkur, grafin grágæsabringa í forrétt, strúta-kengúru-hreindýra-kjöt í aðalrétt, nammi namm. Eðalklúbbur þar sem karlarnir sjá um að elda dýrindis rétti.
Hildur Elísabet afmæli 14. jan. Hrafnhildur vinkona mín afmæli 26. janúar
febrúar 2007
Ég fór á Dale Carnegie námskeið á vegum Glitnis, það var æðisleg upplifun (það ætti að senda allt mannkyn á svona námskeið) http://www.dale.is/ . Á bolludaginn fóru börnin að það sem við Vestfirðingar köllum að Maska, Baldur fékk að fara með systur sinni og vinkonum. Hann var að sjálfsögðu Íþróttaálfurinn.
mars 2007
Keyrðum frá Ísafirði til Reykjavíkur í lok febrúar og vorum með íbúð í vesturbænum í viku og viku hjá Dísu og Ingimar í mosó, gerðum margt skemmtilegt, ég var að vinna hjá Glitni í Lækjargötu, héldum upp á 13 ára afmælið hennar Fríðu 3. mars heima hjá Dísu, pabbi átti afmæli 2. mars. Veðrið var milt og gott og gátum við ekki annað en viðurkennt að okkur líkaði það betur en veturinn sem var fyrir vestan á meðan. Mamma átti afmæli 26. mars. Við hjónakornin flugum svo með Baldur með okkur í lok mars á árshátíð hjá Glitni í Laugardalshöll, hann fór í pössun til ættingja og við gistum á Grand hotel uppi á 8. hæð minnir mig í splunkunýrri byggingu, hrikalega flott allt saman. Skemmtileg ferð með góðu fólki.
apríl 2007
Við vorum enn stödd í borginni og Guðrún systir varð fertug 2. apríl og hélt skemmtilega veislu 1. apríl, við systurnar sungum saman fyrir gestina, höfðum fyrir veisluna farið saman í söngtíma hjá Regínu Ósk, það var æðislegt, Guðrún hafði verið í söngtímum hjá henni og tók hún okkur í einn extra systra-tíma. Svo var haldið heim til Ísafjarðar daginn eftir. Þá komu Páskar seinna í vikunni og Baldur Freyr varð 3 ára 7. apríl, en fjölskyldan lá nánast alla Páskana eða allavega ég og fleiri svo að barnið fékk enga afmælisveislu og við misstum af Aldrei fór ég suður hátíðinni, aðra eins ælupest hef ég og fleiri varla fengið á ævinni, held að ég hafi fengið svona flensu fyrir kannski 10 árum, maður verður svo veikur að maður getur hreinlega ekki staðið, heldur skríður ef maður þarf að fara fram úr rúminu. Seint í apríl fór ég svo í borgina aftur og var þá í viku til að hjálpa mömmu að pakka niður og flytja, hún var að skipta um íbúð, keypti sér æðislega íbúð rétt hjá Smáralind, við Dísa vorum rosalega öflugar að pakka með henni og henda, ég vann hjá Glitni í Lækjargötu á daginn og pakkaði eftir vinnu.
maí 2007
Gullfiskurinn okkar varð 5 ára. Fórum í sumarbústað við golfvöllinn á Hellu í lok maí í viku með góðu vinafólki.
júní 2007
Fengum úthlutaðri lóð á Akranesi, ákváðum að selja húsið á Ísafirði, seldum strax án þess að auglýsa, samþykktum afhendingatíma 28. júní, fengum leiguhúsnæði á Akranesi og leikskólapláss, ég átti afmæli 22. júní, losuðum húsið á mettíma, yfirgáfum Ísafjörð 28. júní kl. 17:05, (það var ekki auðveld stund) Andrea varð eftir á Ísó. Fluttum inn í glæsilega leiguíbúð sem við leigjum í 10 mánuði. Ég fór í langt sumarfrí hjá Glitni, leitaði helst að vinnu á Akranesi. Daníel Orri átti afmæli 3. júní.
Júlí 2007
Gott veður þetta sumar, þetta var dáldið skrítinn tími, smá söknuður í gangi, og aðlögun á nýjum stað. Gaman að vera komin svo nálægt ættingunum. Díza átti afmæli 16. júlí, Stefán bróðir átti afmæli 19. júlí
Ágúst 2007
Fékk vinnu, hætti hjá Glitni, byrjaði að vinna hjá Vinnumálastofnun 27. ágúst, þá voru börnin komin í skóla og leikskóla. Ánægð í vinnunni. Stefán og Sirrý eignast prins 28. ágúst. Við unnum að því að hanna einbýlishús með aðstoð frá góðu fólki og vorum að skoða frá hvaða fyrirtæki við myndum kaupa einingar í húsið. Andrea flutti norður með Kára sínum og byrjaði í VMA, ég keyrði norður með hana og Fríðu í lok ágúst og hjálpaði henni að koma þeim fyrir í íbúðinni. Gestur vinur okkar átti afmæli 18. ágúst. Tengdapabbi átti afmæli 31. ágúst.
September 2007
Fórum vestur 14. september í heimsókn til að sjá litla frænda. Ég flaug svo aftur vestur 22. september því þá var hann skírður. Fyrsta skóflustungan á lóðinni var tekin í ausandi rigningu og roki um miðjan september, stór stund sem við vorum búin að bíða eftir allt sumarið. Tengdamamma átti afmæli 22. september.
Október 2007
Gylfi átti afmæli 6. október og þann dag var byrjað að slá upp fyrir sökkli á lóðinni. Loksins var þetta í okkar höndum og ekki meiri bið í bili. Veðrið var nú ekki gott þennan mánuð frekar en í september, rok og rigning flest alla daga, en ekki daginn sem við byrjuðum. Við Gylfi skelltum okkur vestur í Ísafjarðardjúp 20. október til að fara í óvenjulegan surprise matarklúbb sem varð aðeins öðruvísi en ætlað var, en allt fór vel, keyrðum heim daginn eftir frá Ísafirði, reynslunni ríkari. Kári átti afmæli 28. október.
nóvember 2007
Andrea kom í heimsókn til okkar, við Gylfi fórum Vestur í heimsókn á fína fína árlega ballið þann 10. nóvember. Gylfi var rosalega duglegur að vinna í sökklinum á lóðinni og var platan steypt 26. nóvember í 8 stiga hita. Fórum í skemmtilegt matarboð hjá Heiðu og Lúther og hittum þar Lindu, Gunnar, Dísu og Ingimar, namm, flottur matur. Rúsínan í pylsuendanum var svo 30. nóvember þá fékk ég bíladellukonan afhentan splunkunýjan bíl (í fyrsta sinn) frá Ingvari Helgasyni, Subaru Legacy Sedan, við settum jeppann upp í því við höfum lítið við hann að gera hér á flatlendinu. Vá hvað þetta var gaman, ég sá um ferlið frá A - Ö og fékk mikið kikk út úr því að semja við bílasalann, þeir hjá I.H. fá toppeinkunn frá mér, góð þjónusta og ég er ekki að grínast, bíllinn beið eftir okkur glansandi í upplýstu glerbúri, það lá við að það liði yfir mig, svo keyrðum við bara út, algjör snilld. Mæli með www.subaru.is
Desember 2007
Jólaundirbúningur, Gylfi var svakalega duglegur að vinna í húsamálunum, og einingarnar af húsinu komu svo 6. desember og húsið reis á nokkrum dögum, húsið keyptum við frá Akri á Akranesi, og voru þeirra menn að reisa og setja þakið á. Andrea kom til okkar í jólafrí 12. desember. Þessi mánuður var fljótur að líða og mikið að gerast. Reisugilli í húsinu 12. desember. Daginn fyrir Þorláksmessu lokuðum við húsinu með plötum og plasti fyrir glugga og hurðir, rétt áður en fór að snjóa. Desember var dimmur og veðrið ekkert allt of skemmtilegt, blautt og hvasst, eins og allt haustið. Desember var líka tónleikamánuður í mínu lífi, fór á Jólagesti Björgvins í Laugardalshöll með Dízu bestu "systir" og líka á Frostrósir með henni og Andreu, þetta voru æðislegir tónleikar báðir. Árni Pétur átti afmæli 11. des. Sirrý átti afmæli 27. des. og Alexander 28. desember.
Árið einkenndist fyrri partinn af ferðalögum og dvölum á suðvesturhorninu, sem ég tel að hafi verið nokkurs konar aðlögun af því sem kom svo á eftir. Ekki er annað hægt að segja en að árið hafi verið viðburðaríkt og spennandi, bæði sætt og súrt. En allir eru hraustir og glaðir það er fyrir mestu. Svo vona ég að árið 2008 verði jafn gott og 2007, hjá okkur og ykkur öllum. Ég vona að þið hafið haft gaman að þessu hjá mér.
Hilzen frá mér í bili
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
2.1.2008 | 15:56
Helstu viðburðir ársins 2007 hjá mér
Gleðilegt nýtt ár, ég er að raða saman, helztu viðburðum ársins 2007 í mínu lífi. Næ vonandi að klára í kvöld.
Rosalega var erfitt að vakna í vinnu í morgun, eins gott að það séu bara 3 vinnudagar í vikunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)